Heilbrigðisþjónustan

Allir landsmenn skulu eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði.
Svo segir í lögum um heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisþjónusta tekur til hvers kyns heilsugæslu, lækninga, hjúkrunar, almennrar og sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu, sjúkraflutninga, hjálpartækjaþjónustu og þjónustu heilbrigðisstarfsmanna innan og utan heilbrigðisstofnana sem veitt er í því skyni að efla heilbrigði, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma og endurhæfa sjúklinga.

Heilbrigðisráðuneytið fer með yfirstjórn heilbrigðismála og heilbrigðisráðherra sér um að heilbrigðisþjónusta sé eins góð og þekking og reynsla leyfir og í samræmi við lög og reglugerðir. Landlæknir veitir ráðherra og öðrum stjórnvöldum, heilbrigðisstarfsfólki og almenningi ráðgjöf um heilbrigðismál og annast framkvæmd tiltekinna málaflokka fyrir hönd ráðherra samkvæmt lögum, reglum og venjum sem gilda um embætti hans. Hann hefur eftirlit með starfsemi stofnana og starfi heilbrigðisstétta.

Heilsugæslan veitir öllum heilbrigðisþjónustu. Þar getur almenningur gengið að vísri þjónustu á sviði heimilislækninga, hjúkrunar, bráðaþjónustu, heilsuverndar og forvarna og fengið ráðgjöf og leiðbeiningar.

Sjúkrahús taka við sjúku fólki til vistunar og veita læknishjálp, hjúkrun og aðra þjónustu eftir þörfum. Samkvæmt núgildandi lögum um heilbrigðisþjónustu skiptast sjúkrahús í eftirfarandi flokka eftir tegund og þjónustu:

  • Umdæmissjúkrahús. Sjúkrahús sem ein sér eða í samvinnu við önnur veita almenna sjúkrahúsþjónustu bæði á göngu- og dagdeildum. Oftast eru þar einnig hjúkrunarrými. Þar er veitt fæðingarhjálp ef sérþekking á henni er fyrir hendi og önnur þjónustu sem samið hefur verið um.

  • Sérhæfð sjúkrahús. Landspítali og Sjúkrahús Akureyrar veita sérhæfða sjúkrahúsþjónustu.

Starfsstofur heilbrigðisstétta. Þar er veitt margvísleg sérfræðiþjónusta á sérsviði heilbrigðisstétta, ýmist af einum sérfræðingi eða fleirum sem reka saman starfsstofur.

Hjúkrunarheimili. Heimili fyrir aldraða og sjúklinga sem vegna heilsufarsvanda geta ekki búið heima með tiltækri aðstoð og hafa verið metnir í þörf fyrir vistun, sbr. lög um málefni aldraðra.

Endurhæfingarstofnanir. Stofnanir fyrir sjúklinga sem búið er að sjúkdómsgreina en þarfnast endurhæfingar í lengri eða skemmri tíma.

Vimuefnameðferðarstofnanir. Stofnanir fyrir sjúklinga sem þurfa meðferð vegna vímuefnafíknar og heyra undir heilbrigðisráðuneytið.

Alþingi samþykkti ný lög um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 þann 17. mars 2007 og tóku þau gildi 1. september 2007. Samkvæmt lögunum er heilbrigðisþjónustu skipt í almenna og sérhæfða heilbrigðisþjónustu og henni skipt í ákveðna flokka. Sjá flokkun heilbrigðisþjónustu með nánari lýsingu á ýmsum formum þjónustunnar.


Uppfært 20. febrúar 2009

Blóðþrýsingsmæling





Aukaval


Leturstærðir


Leit

Leitarvél
Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli