Prenta fréttSenda fréttHlusta á upptökuHorfa á myndskeiðHlusta á hljóðskrá

Tvö hugsanleg svínaflensutilfelli

Tvö hugsanleg svínaflensutilfelli

Tveir Íslendingar, nýkomnir frá Bandaríkjunum, hafa fengið einkenni sem gætu bent til svínaflensu. Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnarlæknir hafa ákveðið að setja upp viðbúnað á Keflavíkurflugvelli fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Heimsviðbúnaðarstig vegna svínaflensu var í gær hækkað úr þremur í fjóra, á sex þrepa mælikvarða Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.  Það viðbúnaðarstig er staðfesting á því að veiran berist milli manna og geti valdið faraldri. Í viðbragðsáætlun Almannavarna frá 2008, sem unnin var af Almannavarnadeild Ríkislögreglustjórans og Sóttvarnalæknis kemur meðal annars fram að á þessu stigi sem flokkast sem hættustig, skuli grípa til tiltekinna ráðstafana til að koma í veg fyrir að sýktir einstaklingar komi til Íslands.
 
Viðbragðsáætluninni hefur nú verið hrundið í framkvæmd.
 
Haraldur segir að sérstaklega þurfi að koma upplýsingum til ferðamanna á leið frá Mexíkó og Bandaríkjunum að þeir hafi samband við lækni ef þeir eru með einkenni sem svipar til inflúensu.  Aðgang ferðamanna til landsins verði ekki tálmaður. Haraldur segir að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin leggist gegn því vegna þess að veirusmitið virðist vera komið út um allan heim. Engum tilgangi þjóni að takmarka ferðir.
 
Haraldur segir að Landlæknisembættið hafi ráðlagt þeim sem séu á leið til Mexíkó að hætta við, nema þeir eigi þangað mjög brýnt erindi. Alþjóða heilbrigðisstofnunin hefur gefið út tilkynningu og hvetur fólk til að ferðast ekki til Mexico.
Haraldur segir að starfsfólk heilsugæslustöðva verði nú upplýst um einkenni flensunnar auk þess sem gerðar verði ráðstafanir á Keflavíkurflugvelli þar sem þeir, sem hugsanlega eru smitaðir, geti fengið aðstoð. Fram kom á blaðamannafundinum að tveir Íslendingar um tvítugt sem nýkomnir eru frá Bandaríkjunum hafa einkenni sem gætu bent til svínaflensu. Haraldur vill þó ekki fullyrða um að svo sé, en býst við að hér komi upp tilfelli rétt eins og annars staðar.
 
Tengdar fréttir:

frettir@ruv.is

Senda á Facebook
3. maí 2009


Streymiþjónusta