Lýðræði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Almennar kosningar eru ein undirstaða fulltrúalýðræðis.

Lýðræði er vítt hugtak yfir þær stjórnmálastefnur sem byggja á þátttöku almennings í ákvörðunum er hann varðar. Grunnútgangspunkturinn er því að valdið í tilteknu samfélagi manna eigi sér frumuppsprettu á fólkinu. Fyrr á öldum, allt fram að nútímanum, var fullveldi talið til óskoraðs guðdómleika konunga á Vesturlöndum. Almenningur lét ekki til sína taka fyrr en franska byltingin var gerð. Í sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna er vísað til sameiginlegs „réttar fólksins” sem ekki hafði áður spurst til.

Fulltrúalýðræði er algengasta mynd lýðræðis í dag. Sökum takmarkana á tíma og aukinni sérþekkingu sem þarf til þess að taka ákvarðanir um hin ýmsu mál sem skipta máli hefur orðið til sérhæfð verkaskipting þar sem stjórnmálamenn bjóða sig fram til embætta. Þessir stjórnmálamenn þiggja umboð fólksins í kosningum og gerast þannig fulltrúaar almennings sem taka ákvarðanir fyrir hans hönd. Beint lýðræði felur í sér beina þátttöku fólksins í ákvarðanatöku, án fulltrúa eða annarra milliliða. Beint lýðræði er sjaldgæfara stjórnafyrirkomulag en sem dæmi má nefna mikilvægi þjóðaratkvæðagreiðslna í Sviss. Sögulega er eitt þekktasta dæmið um beint lýðræði fengið frá Forn-Grikklandi þegar borgríkið Aþena var og hét.

Skilyrði lýðræðis[breyta | breyta frumkóða]

Nokkur skilyrði þarf að uppfylla til þess að stjórnarfar geti talist lýðræðislegt. Valdhafar þurfa að vera kosnir. Kosningar þurfa að vera haldnar með reglulegu millibili sem má ekki vera mjög langt. Þetta tímabil er nefnt kjörtímabil og er fjögur ár að meðaltali eða þar um bil. Einnig þarf að ríkja tjáningarfrelsi því ef því er stjórnað hvað fólk veit getur það ekki tekið upplýstar ákvarðanir. Það fylgir því að fólk þarf að hafa aðgengi að mismunandi upplýsingum. Tiltölulegt frelsi þarf að ríkja meðal fjölmiðla. Ýmiss borgaraleg réttindi þurfa að vera til staðar s.s. félagafrelsi til þess að fólk geti saman unnið að hagsmunamálum sínum.

Benda verður á að þótt ríki teljist réttarríki og stjórnarskráin hafi fögur fyrirheit að geyma þýðir það ekki að reyndin sé svo. Í Sovétríkjum kommúnismans setti Stalín stjórnarskrá í desember 1936 þar sem í orði kveðnu var tryggt mál-, prent- og félagafrelsi en reyndin var önnur.

Nauðsynlegt er að lögreglan og herinn í landinu sé undir stjórn lýðræðislega kjörinna fulltrúa. Eðli málsins samkvæmt eru þessar tvær valdastofnanir færar um að taka stjórnina í sínar hendur og því nauðsynlegt að þær hafi ekki sjálfsforræði.

Þessu til viðbótar er það talið skilyrði fyrir þróun raunverulegs lýðræðis að til staðar sé markaðsskipulag. Það þýðir þó alls ekki að markaðsskipulag komi í veg fyrir ólýðræðislegt stjórnarfar eins og fjölmörg dæmi sanna. Á sama tíma krefst lýðræði tiltölulegs efnahagslegs jafnaðar. „Á milli markaðarins og lýðræðis er … viss togstreita, því markaðurinn vinnur gegn jöfnuði af því tagi sem er hagstæður lýðræðinu og lýðræðið krefst þess oft að þrengt sé að einkaeign og markaði með ýmsum hætti.[1]

Kosningaréttur[breyta | breyta frumkóða]

Rétturinn til þess að kjósa, kosningarétt, er takmarkaður. Víðast hvar er miðað við 18 ára kosningaaldur, það að borgarar nái fullorðinsaldri, og að viðkomandi sé ríkisborgari þess lands þar sem kosið er. Sumsstaðar eru aðrar takmarkanir og sögulega hefur kosningaréttur meðal annars verið bundinn við þjóðerni, kyn, kynþátt og eignir.

Á Íslandi fengu konur fyrst kosningarétt árið 1915. Í Sviss þurftu þær að bíða til ársins 1975.

Kosningakerfi[breyta | breyta frumkóða]

Miklu máli skiptir hvernig kosningakerfi er í landinu, hvort um sé að ræða hlutfallslega listakosningu eða ein- eða tvímenningskjördæmi. Fyrst þarf að ákvarða hversu mörg kjördæmi eiga að vera. Í Ísrael er landið allt eitt kjördæmi en kjördæmi Íslands eru sex talsins.

Kjördæmi eru fleiri ef ástæða þykir til að aðlaga dreifingu þingmanna eftir landfræðilegri legu. Þannig tryggja mismunandi landamæri kjördæma ákveðinn fjölda þingmanna innan þeirra, hvort sem um er að ræða einmenningskjördæmi eða listakjördæmi.

Kosningakerfi gefa góða vísbendingu um það hvers kyns flokkakerfi myndast. Ein- og tvímenningskjördæmi stuðla að öðru óbreyttu að flokkakerfi tveggja ráðandi flokka, líkt og í Bretlandi. Hlutfallslegt listakerfi stuðlar hins vegar að aukinni valddreifingu og fjölflokkakerfi þar sem minnihlutahópar komast frekar að.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Gunnar Helgi Kristinsson. Íslenska stjórnkerfið. Háskóli Íslands, 2006. ISBN: ISBN 99797547138, bls 33

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi stjórnmálagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.