Mónakó

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Principauté de Monaco (franska)
Principatu de Munegu (mónakóska)
Furstadæmið Mónakó (íslenskt)
Fáni Mónakó Skjaldamerki Mónakó
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
„Deo Juvante
(latína: Með guðs hjálp)“
Þjóðsöngur:
Hymne Monégasque
Staðsetning Mónakó
Höfuðborg Mónakó
Opinbert tungumál franska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn
Albert II
Jean-Paul Proust
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)
192. sæti
2,02 km²
0
Mannfjöldi
 - Samtals (2013)
 - Þéttleiki byggðar
188. sæti
36.950
18.229/km²
VLF (KMJ)
- Samtals
- á mann
áætl. 2000
870 millj. dala (177. sæti)
27.000 dalir (24. sæti)
Gjaldmiðill evra (EUR)
Tímabelti UTC+1
Þjóðarlén .mc
Landsnúmer 377

Furstadæmið Mónakó (franska: Principauté de Monaco; mónakóska: Principatu de Munegu) er borgríki og annað minnsta ríki heims. Það er innan landamæra Frakklands með strandlengju að Miðjarðarhafi við frönsku rívíeruna. Það takmarkast við borgina Mónakó og ströndina framan við hana en varla er nokkurt óbyggt svæði innan landamæra ríkisins og þar er enginn landbúnaður stundaður. Land ríkisins hefur þó stækkað svolítið á síðari árum vegna landfyllinga út í sjó.

Staðhættir[breyta | breyta frumkóða]

Séð yfir Mónakó. Monte Carlo lengst til vinstri, þá La Condamine, Monaco-Ville og Fontvieille.

Mónakó er þéttbýlasta land heims og eitt af örríkjum Evrópu. Það dregur nafn sitt af grísku nýlendunni Mónoíkos sem Föníkar stofnuðu þar nálægt á 6. öld f.Kr. Borgin er fræg fyrir að Formúla 1 er oft haldin á götum borgarinnar.

Mónakó skiptist í fjögur hverfi: Austast er Monte Carlo, sem er þéttbýlast og þar er meðal annars spilavítið fræga; La Condamine, umhverfis höfnina; Monaco-Ville, elsta hverfið, þar sem furstahöllin er; og vestast Fontvieille, sem er að miklu leyti reist á landfyllingum. Þar er önnur höfn.

Efnahagur[breyta | breyta frumkóða]

Spilavítið, Monte Carlo Casino, var stofnað 1856 til að ráða bót á efnahagsvanda sem skapaðist þegar Grimaldiættinn tapaði meginhluta lenda sinna, og byggingu hússins lauk 1863. Það skilaði fljótt miklum hagnaði og árið 1869 var hætt að leggja tekjuskatt á íbúa Mónakó því tekjur af spilavítinu dugðu. Allar götur síðan hefur Mónakó verið vinsælt skattaskjól og spilavítið hefur lengst af verið aðaltekjulind furstafjölskyldunnar og ríkisins þótt ferðamannaiðnaðurinn verði stöðugt mikilvægari.

Þetta veldur því að húsnæðisverð er afar hátt í furstadæminu og hvergi eru hlutfallslega fleiri auðmenn. Mikill hluti þeirra sem starfa í Mónakó býr hins vegar utan landamæra furstadæmisins og um 48.000 manns koma þangað daglega til starfa frá Frakklandi og Ítalíu og fara heim á kvöldin.

Tvær hafnir eru í Mónakó og mikill fjöldi af skemmtisnekkjum og bátum hefur þar bækistöðvar sínar, auk þess sem fjöldi stórra skemmtiferðaskipa kemur þar við.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Mónakó er furstadæmi og hefur Grimaldi-ættin setið þar við völd frá 1297, þegar Francesco Grimaldi og menn hans hertóku virki sem þar var, þó ekki óslitið því Genúamenn hröktu Grimaldi þaðan nokkru síðar. Árið 1419 var Mónakó undir yfirráðum Konungsríkisns Aragóníu en þá keypti Grimaldi-ættin svæðið og árið 1612 fór Honore 2. að kalla sig fursta af Mónakó. Hann leitaði nokkru síðar á náðir Loðvíks 13. Frakkakonungs vegna ásóknar Spánverja og gerðist lénsmaður hans. Varð furstadæmið, ásamt héröðunum Menton og Roquebrune, sem tilheyrt höfðu því síðan á 14. öld, þá franskt verndarsvæði.

Það var innlimað í Frakkland í byltingunni, 1793, fékk sjálfstæði að nýju 1814 en á Vínarfundinum 1815 var það gert að verndarsvæði Konungsríkisins Sardiníu. Það varð svo aftur franskt verndarsvæði um miðja öldina. Um svipað leyti lýstu Menton og Roquebrune yfir sjálfstæði og sameinuðust síðan Frakklandi. Við það minnkaði land Mónakó um 95% en Frakkar greiddu furstanum í staðinn rúmar fjórar milljónir franka og viðurkenndu sjálfstæði Mónakó árið 1861.

Albert fursti og Charlene furstynja.

Furstar Mónakó voru einvaldar allt til 1911, þegar ný stjórnarskrá gekk í gildi. Furstinn hefur þó enn mikil völd. Rainier 3. tók við af föður sínum, Loðvík 2., árið 1949 og stýrði furstadæminu til 31. mars 2005, þegar hann lét völdin í hendur sonar síns, Alberts, vegna sjúkleika og lést svo sex dögum síðar. Albert 2. tók þá við furstadæminu. Hann giftist suður-afrísku sunddrottningunni Charlene Wittstock 1. júlí 2011.

Stjórnarskrá Mónakó var breytt 2002 vegna erfðamála en Albert prins var þá hálffimmtugur, ókvæntur og átti ekki skilgetin börn. Verði furstahjónunum ekki barna auðið mun Karólína prinsessa, eldri systir Alberts, því erfa ríkið við lát hans eða eldri sonur hennar, Andrea Casiraghi.