Ronald Reagan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Ronald Reagan

Ronald Wilson Reagan (6. febrúar 19115. júní 2004) var fertugasti forseti Bandaríkjanna (1981 – 1989) og þrítugasti og þriðji ríkisstjóri Kaliforníu (1967 – 1975).

Fjölskylda[breyta | breyta frumkóða]

Ronald Reagan fæddist í Tampico í Illinois í Bandaríkjunum, sonur hjónanna Nelle Clyde Wilson Reagan (24. júlí 1883 – 25. júlí 1962) og John Edward Reagan (1883 – 1941) en fyrir áttu þau John Neil Reagan (16. september 1908 – 11. desember 1996).

Árið 1940 giftist Reagan leikkonunni Jane Wyman (5. janúar 1917 – 10. september 2007). Saman eignuðust þau tvö börn, Maureen Elizabeth Reagan (4. janúar 1941 – 8. ágúst 2001) og Christine Reagan (26. júní 1947 – 27. júní 1947) og ættleiddu þriðja barnið,[Michael Edward Reagan (f. 18. mars 1945). Reagan og Wyman skildu árið 1949.

Reagan giftist leikkonunni Nancy Davis árið 1952 og varð hún forsetafrú Bandaríkjanna á árunum 1981-1989. Nancy er betur þekkt sem Nancy Reagan. Saman eiga þau tvö börn, Patti Davis (f. 21. október 1952) og Ronald Prescott Reagan (f. 28. maí 1958).

Ferill í stjórnmálum[breyta | breyta frumkóða]

Ronald og Nancy Reagan að halda upp á sigur Reagans sem ríkisstjóra Kaliforníu á Biltmore-hótelinu í Los Angeles.

Ronald Reagan var upphaflega félagi í Demókrataflokknum í Bandaríkjunum en skipti yfir í Repúblikanaflokkinn árið 1962. Árið 1966 var hann kjörinn ríkisstjóri Kaliforníu og endurkjörinn árið 1970.

Reagan bauð sig fram í forkosningum repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar árið 1976 en tapaði fyrir Gerald Ford. Árið 1980 bauð hann sig aftur fram í forkosningum og vann þá og var tilnefndur forsetaframbjóðandi repúblikana. Í kjölfar þess hlaut hann yfirburðakosningu gegn sitjandi forseta, Jimmy Carter, og tók við forsetaembættinu 20. janúar 1981. Að loknu fyrsta kjörtímabili sínu sem forseti Bandaríkjanna bauð hann sig aftur fram og hlaut aftur yfirburðakosningu gegn frambjóðanda demókrata, Walter Mondale árið 1984, og hófst því annað kjörtímabil hans 20. janúar 1985.

Ronald Reagan var þekktur fyrir andstöðu sína við kommúnisma, sem lýsti sér í harðri afstöðu gegn Sovétríkjunum. Hann átti þátt í lokakafla kalda stríðsins með viðræðum við aðalritarann Mikhaíl Gorbatsjov en þeir áttu meðal annars fund í Höfða í október 1986. Sama ár hófst Íran-kontra hneykslið sem vakti harða gagnrýni á forsetann en hann neitaði í fyrstu vitneskju um ólöglegar vopnasendingar til kontraskæruliða í Níkaragva.

Forsetatíð[breyta | breyta frumkóða]

Reagan var 69 ára gamall þegar hann var kjörinn forseti og er elsti einstaklingurinn til að taka við embættinu. Í innsetningarræðunni 1981, sem hann skrifaði sjálfur, staðhæfði hann að „í yfirstandandi erfiðleikum er ríkisvaldið ekki lausnin á vandamálum okkar, heldur sjálft vandamálið“ (e: In this present crisis, government is not the solution to our problem; government is the problem) og vísaði þar til þess efnahagsvanda sem Bandaríkin stóðu frammi fyrir, hárri verðbólgu, efnahagslægð og atvinnuleysi. Tuttugu mínútum eftir að Reagan sór embættiseið var 52 bandarískum gíslum sleppt en þeim hafði verið haldið föngnum í 444 daga í bandaríska sendiráðinu í Tehran, höfuðborg Íran.

Morðtilræði[breyta | breyta frumkóða]

Þann 30. mars 1981 var Ronald Reagan sýnt morðtilræði fyrir utan Hilton hótel í Washington D.C. Auk forsetans særðust þrír menn í árásinni. Árásarmaðurinn John Hinckley Jr. skaut sex skotum að forsetanum. Eitt skot hæfði fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins James Brady í höfuðið, annað hæfði lögreglumann í bakið og hið þriðja hæfði einn lífvarða forstans. Síðasta skotið endurkastaðist af bíl forsetans og hæfði hann í handlegginn og vinstra lunga. Litlu munaði að verr færi, því skotið staðnæmdist fáeinum sentimetrum frá hjarta hans.

Forsetinn náði fljótt fullum bata, sömu leiðis lífvörðurinn og lögreglumaðurinn. Fjölmiðlafulltrúi forsetans, James Brady, var hins vegar bundinn við hjólastól enda alvarlega slasaður. Ásamt konu sinni helgaði Brady krafta sína baráttu gegn ofbeldisverkum þar sem skotvopnum er beitt. Við hann er kennd The Brady Campaign og The Brady Center to Prevent Gun Violence, sem hafa verið áberandi í þessari baráttu. Í kjölfar árásarinnar vaknaði umræða um nauðsyn hertrar löggjafar gegn óheftri vopnaeign. Reagan lýsti sig þó engu að síður andsnúinn hertri löggjöf gegn skammbyssueign.

John Hinckley Jr. var sýknaður af morðákæru, þar sem hann var talinn ósakhæfur vegna geðsýki. Markmið Hinckley með árásinni var að ná athygli leikkonunnar Jodie Foster, en hann hafði talið sér trú um að með því að myrða forseta Bandaríkjanna gæti hann náð ástum hennar. Áður en Reagan varð forseti hafði Hinkckley lagt á ráðin um að myrða Jimmy Carter.

Í gegnum söguna hefur fjöldi tilrauna verið gerður til að ráða forseta Bandaríkjanna af dögum. Þó fjórar hafi tekist (Abraham Lincoln, James. A. Garfield, William McKinley og John F. Kennedy) hafa flestar hafa mistekist, árásarmennirnir ekki næð að komast í tæri við forsetann, ekki hæft hann, eða verið yfirbugaðir í þann mund er þeir hugðust fremja ódæðið. Af forsetum Bandaríkjanna eftir stríð voru gerðar tilraunir til að ráða Harry Truman og Richard Nixon af dögum. Í báðum tilfellum voru árásarmennirnir yfirbugaðir í skotbardaga. Tvær tilraunir voru einnig gerðar til að ráða Gerald Ford af dögum. Eins og þekkt er var John F. Kennedy ráðinn af dögum í Dallas, Texas. Reagan er fyrsti sitjandi forseti Bandaríkjanna til að særast en lifa af morðtilraun.

Efnahagsstefna[breyta | breyta frumkóða]

Þegar að Reagan tók við af Jimmy Carter var verðbólga í Bandaríkjunum 12,5%. Undir stjórn Paul Volcker, seðlabankastjóra Bandaríkjanna (1979 – 1987) tókst að koma böndum á verðbólgu, og þegar Reagan lét af völdum var verðbólga komin niður í 4,4%. Eitt helsta markmið og kosningaloforð Reagan var að lækka skatta. Reagan stóð við það loforð með stórri skattalækkun árið 1981. Þó Reagan hafi hækkað skatta að nýju árin 1982 og 1983 er hans fyrst og fremst minnst fyrir þessa stóru skattalækkun, enda hafði hún í för með sér umtalsverðar breytingar á bandaríska skattkerfinu, þar sem skattar í hæstu hátekjuþrepunum voru lækkaðir úr 70% í 50%. Hátekjuskattar voru lækkaðir enn frekar árið 1986. Reagan réðst einnig í umtalsverða afreglun á flestöllum sviðum efnahagslífsins. Reglum var meðal annars létt af fjármálafyrirtækjum, þar með talið sparisjóum, sem átti þátt í sparisjóðahruninu í lok áratugarins (e: the Savings and Loan Crisis, eða S&L Crisis).

Utanríkisstefna[breyta | breyta frumkóða]

Þann 23. október árið 1983 í Beirút var gerð árás á bandaríska friðargæsluliða og dóu 241 og meira en 60 særðust þegar að vöruflutningabíll með sprengiefni sprakk. Reagan vildi hernaðaraðgerðir gegn Hezbollah en ekkert varð úr þeim. Aðeins tveimur dögum seinna, þann 25. október gerðu Bandaríkjamenn innrás í Grenada þar sem valdarán hafði átt sér stað. Árásin var stutt en var samt fyrsta stóra hernaðaraðgerð Bandaríkjanna síðan í Víetnam. í þessu stríði létust 16 bandarískir hermenn og 116 særðust. í desember sama á eftir að ný ríkisstjórn tók við í Grenada var bandaríska herliðið dregið til baka. Tilraunir Reagan til að auka völd og áhrif Bandaríkjanna í Mið-Ameríku voru ekki allar jafn árangursríkar, samanber Íran-kontra hneykslið.

Reagan fór í að efla bandaríska herinn gegn Sovétríkjunum sem hann kallaði hið vonda heimsveldi í einni af sínum ræðum og hann spáði því að kommúnisminn myndi falla og að þessi hugsjón væri enn einn sorglegi kaflinn í sögu mannkynsins. Reagan og ríkistjórn hans var mikið í mun að styðja við and-kommúnískar hreyfingar, meðal annars í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku til að koma í veg fyrir útbreiðslu kommúnismans. Stuðningur Bandaríkjanna við afganska uppreisnarmenn var einn liður í að enda hersetu Sovétmanna í Afganistan en dæmið átti eftir að snúast við seinna meir þegar Bandaríkjamenn réðust inn í Afganistan árið 2001.

Árið 1983 var stjörnustríðs áætlunin kynnt og fól hún það í sér að verja Bandaríkin fyrir kjarnorkuárás annarra ríkja og talið að þessi áætlun hafi flýtt fyrir endalokum kaldastríðsins. Gagnrýnendur lýstu utanríkisstefnunni hjá Reagan sem árásagjarnri og að hann talaði fyrir stríðsrekstri. Það var svo árið 1985 að spennan fór að slakna á milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna með tilkomu Mikhails Gorbachev. Hann boðar breytingar sem leiddu til betri samskipta á milli þessara stórvelda.

Eftir forsetatíð[breyta | breyta frumkóða]

Reagan gekkst undir nokkrar aðgerðir vegna krabbameins þegar hann var forseti en hann lét af embætti árið 1989. Árið 1994 var hann greindur með Alzheimer-sjúkdóminn og hann lést árið 2004 þá 93 ára að aldri. Hann er einn vinsælasti forseti Bandaríkjanna og hafa skoðanakannanir iðulega sýnt það.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Jimmy Carter
Forseti Bandaríkjanna
(1981 – 1989)
Eftirmaður:
George H. W. Bush