Hondúras

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
República de Honduras
Fáni Hondúras Skjaldamerki Hondúras
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
„Libre, Soberana e Independiente
(spænska: „Frjálst, fullvalda og sjálfstætt““
Þjóðsöngur:
Tu bandera es un lampo de cielo
Staðsetning Hondúras
Höfuðborg Tegucigalpa
Opinbert tungumál spænska
Stjórnarfar Lýðveldi
Juan Orlando Hernández
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)
102. sæti
112.090 km²
~0
Mannfjöldi
 - Samtals (2010)
 - Þéttleiki byggðar
94. sæti
7.989.415
68,2/km²
VLF (KMJ)
- Samtals
- á mann
áætl. 2011
35,697 millj. dala (99. sæti)
4.345 dalir (127. sæti)
Gjaldmiðill lempíra
Tímabelti UTC-6
Þjóðarlén .hn
Landsnúmer 504

Hondúras er land í Mið-Ameríku með landamæri að Gvatemala í vestri, El Salvador í suðvestri, Níkaragva í suðaustri og strönd að Kyrrahafi (Fonseca-flóa) í suðri og Karíbahafi (Hondúrasflóa) í norðri. Landið var áður kallað Spænska Hondúras til aðgreiningar frá Breska Hondúras sem nú heitir Belís.

Í Hondúras komu upp nokkur ríki maja. Kristófer Kólumbus kom til landsins árið 1502 og Hernán Cortes lagði það að mestu leyti undir Spán á fyrri hluta 16. aldar. Þeir sóttust þar eftir auðugum silfurnámum. Hondúras varð hérað innan Konungsríkisins Gvatemala. Miskítóar í norðausturhlutanum vörðust innrásarhernum og héldu sjálfstæði sínu, meðal annars með stuðningi Breta. Hondúras varð sjálfstætt 1821 sem hluti af Fyrsta mexíkóska keisaradæminu. Eftir 1838 varð landið sjálfstætt lýðveldi. Í upphafi 20. aldar fengu bandarísk bananaræktunarfyrirtæki lönd og leyfi til að byggja upp starfsemi í norðurhluta landsins. Þessi fyrirtæki, Cuyamel Fruit Company (til 1930), United Fruit Company og Standard Fruit Company bjuggu til útlenduhagkerfi þar sem þau greiddu enga skatta og skiluðu því litlu til samfélagsins. Árið 1969 braust Knattspyrnustríðið út milli Hondúras og El Salvador. Eftir röð herforingjastjórna voru frjálsar kosningar haldnar í landinu árið 1981. Um sama leyti fékk Bandaríkjaher aðstöðu til að styðja við Kontraskæruliða í Níkaragva.

Hondúras er fjalllent með láglendisræmur við strendurnar. Á Moskítóströndinni við Karíbahaf er regnskógur. Hondúras er eitt þeirra landa heims þar sem líffræðileg fjölbreytni er hvað mest. Landið hefur orðið illa úti vegna fellibylja á borð við Fifi 1979 og Mitch 1998 sem lagði bananaræktunina í rúst. Um það bil helmingur vegakerfis landsins eyðilagðist í miklum flóðum árið 2008.

Íbúar Hondúras eru rúmlega átta milljónir. Flestir búa við miðbik landsins eða í suðvesturhlutanum. Hagvöxtur hefur verið þar með því mesta sem gerist í Rómönsku Ameríku en tæplega helmingur landsmanna býr samt við fátækt og atvinnuleysi er tæplega 30%. Landið er mjög skuldugt. Aðalatvinnugreinin er landbúnaður, einkum kaffiræktun sem stendur undir 22% af útflutningstekjum landsins.

Stjórnsýsluskipting[breyta | breyta frumkóða]

Hondúras er skipt í 18 umdæmi. Þau skiptast svo í 298 sveitarfélög.

Umdæmi í Hondúras
  1. Atlántida
  2. Choluteca
  3. Colón
  4. Comayagua
  5. Copán
  6. Cortés
  7. El Paraíso
  8. Francisco Morazán
  9. Gracias a Dios
  1. Intibucá
  2. Islas de la Bahía
  3. La Paz
  4. Lempira
  5. Ocotepeque
  6. Olancho
  7. Santa Bárbara
  8. Valle
  9. Yoro
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.