Beint á leiđarkerfi vefsins

Fréttir

0 - 1

25.6.2009

Framlenging kjarasamninga viđ ASÍ – Stöđugleikasáttmáli

 

Kjarasamningar við Alþýðusambandið og aðildarfélög þess voru framlengdir í dag ásamt því að stöðugleikasáttmáli aðila vinnumarkaðarins, ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaga var undirritaður.

 

Markmið Samtaka atvinnulífsins í viðræðum við Alþýðusambandið, ríkisstjórnina og aðra aðila stöðugleikasáttmálans var að skapa skilyrði fyrir sóknarfærum í atvinnulífinu, nýjum fjárfestingum, auknum umsvifum, fjölgun starfa, minna atvinnuleysi og meiri verðmætasköpun.

 

Kjarasamningarnir viðhalda mikilvægri samstöðu á vinnumarkaðnum og veita fyrirtækjum nokkurt svigrúm miðað við áður umsamdar launabreytingar. Kauptaxtahækkun 1. júlí verður skipt og helmingur hennar flyst til 1. nóvember, ásamt 3,5% launaþróunartryggingu, en áformaðar hækkanir í ársbyrjun næsta árs flytjast til 1. júní 2010. Samningarnir renna út í lok nóvember á næsta ári ári og verða þá að fullu efndir miðað við upphaflega gerð þeirra. Nýr endurskoðunarpunktur kemur inn 1. nóvember nk. í því skyni að meta framgang þeirra mála sem samið var um í stöðugleikasáttmálanum og þróun hagstærða. Þótt svigrúm atvinnulífsins til þess að hækka laun sé minna en ekkert í núverandi efnahagsástandi eru mikil verðmæti fólgin í því að koma í veg fyrir þá óvissu sem uppsögn samninga af hálfu SA hefði getað valdið sem ennfremur hefði tafið nauðsynlegar aðgerðir til framgangs atvinnulífsins.

 

Stöðugleikasáttmálinn fjallar um mikilvæg atriði sem hafa langflest að markmiði að bæta starfsskilyrði atvinnulífsins. Fjallað er um hvernig draga skuli úr hallarekstri ríkissjóðs með lækkun útgjalda og hækkun skatta næstu árin, sem voru helstu átakamálin undir lok samningaviðræðna. Gert er ráð fyrir því að skattahækkanir brúi að hámarki 45% af fjárþörf til aðlögunar í ríkisfjármálum samtals á tímabilinu 2009 - 2011. Á þessu ári er gert ráð fyrir að skattar brúi um 58% af þessari fjárþörf en hlutdeild skattanna fari síðan lækkandi ár frá ári en niðurskurðar vaxandi.

 

Í sáttmálanum eru sett ákveðin viðmið um lækkun vaxta, endurreisn bankakerfisins og afnám gjaldeyrishafta í áföngum. Að auki verður greitt fyrir framkvæmdum og fjárfestingum og í sáttmálanum er einnig að finna ýmis fleiri mikilvæg atriði.

 

Það er sérstaklega mikilvægt að tryggja eðlilegt fjárflæði milli Íslands og annarra landa með opnum aðgangi að erlendu lánsfé, fjárfestingum og nýrri uppbyggingu í útflutningsgreinum. Það tryggir að gengi íslensku krónunnar geti hækkað á nýjan leik og nálgast jafnvægisgengi sem er lykilatriði til þess að ná niður verðhækkunum, bæta lífskjör og koma starfsemi fyrirtækja í ásættanlegt horf. Mikil fjárhagsleg endurskipulagning er hafin og framundan í atvinnulífinu og því er brýn nauðsyn á því að starfsskilyrði fyrirtækjanna verði eins hagstæð og kostur er á erfiðleikatímum.

 

Framundan er mikil vinna hjá Samtökum atvinnulífsins að fylgja eftir stöðugleikasáttmálanum. Allir sem komu að gerð sáttmálans lögðu sig mikið fram og þurftu að sýna ábyrgð og samstarfsvilja. Þetta á jafnt við um viðsemjendur SA í Alþýðusambandinu, aðra aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélögin og ríkisstjórnina. Sáttmálinn er raunveruleg sátt um aðgerðir sem skipta sköpum fyrir framhaldið hjá allri íslensku þjóðinni. Því ríður á að vel takist til um framkvæmdina.

 

Samtök atvinnulífsins þakka öllum sem komu að vinnu við kjarasamningana og stöðugleikasáttmálann. Nú hefur kviknað von um að sigrast megi á erfiðleikunum og að betri tíð sé í vændum.

 

Stöðugleikasáttmáli

 

Samkomulag um framlengingu samninga SA og ASÍ

 

Minnisblað vegna verklegra framkvæmda

 

Upplýsingar á ensku um stöðugleikasáttmála


Hús atvinnulífsins
Borgartúni 35 - 105 Reykjavík
----------
Fréttabréf SA:

Stjórnborđ

Forsíđa vefsins Stćkka letur Minnka letur Senda ţessa síđu Hamur fyrir sjónskerta Prenta ţessa síđu Veftré

Fánar

In english