Andrés Jónsson

blogg á eyjan.is

Hjónadjöfullinn Facebook

13.12 2010 | 08:25 | 6 ummæli

Í framhaldi af síðustu færslu fór ég að velta fyrir mér umræðunni um Facebook og þá sérstaklega að þessi vinsæli samskiptavefur sé ástæða fjölda hjónaskilnaða og sambandsslita.

Fólk virðist vera afar tilbúið til að fordæma Facebook sem argasta hjónadjöful.

Ég hef áður lýst því hvernig mér finnst Facebook hafa umbreytt íslenskum veruleika. Samskiptasíðan hafi breytt verstu þumburum í vingjarnlegt fólk og megnað að losa heila þjóð við feimnina.

Og ég er ekki að kaupa þessar fullyrðingar um meintar skuggahliðar Fésbókarinnar.
—–

Ég tel að við séum að horfa á þetta sambandsslitamál frá rangri hlið.

Er ekki málið að fólk hefur aldrei haft eins skýra mynd af úrvalinu af hugsanlegum mökum?

Það geti þannig verið að skilnaðir og sambandsslit vegna tilkomu Fésbókarinnar séu bara afleiðing af tímabundinni markaðsleiðréttingu.

Þetta er í samræmi við kenningar þeirra sem mest hafa úthrópað Facebook. Aukið framboð af góðum valkostum, konum og körlum, hefur dregið úr eftirspurninni eftir núverandi mökum.

Fólk ber saman það sem situr á sófanum, við það sem það sér á tölvuskjánum. Engin samkeppni þar.

En eins og svo oft áður þá þarf að horfa til langs tíma til að sjá heildarmyndina.

—–

Semsagt… Ef kenning mín er rétt þá mun skilnuðum fækka – þ.e.a.s. eftir að leiðréttingin hefur átt sér stað.

Því Facebook gerir makaleitina skilvirkari. Þú hefur meiri upplýsingar um stærra mengi.

Fólk verður meðvitað um vini úr æsku, fyrrv. skólafélaga og vinnufélaga sem líta kannski allt í einu rosalega vel út, lifa áhugaverðu lífi og hafa ýmislegt gáfulegt fram að færa, ef marka má status-uppfærslur þeirra á Facebook.

Það er líka mun auðveldara fyrir fólk að nálgast þessa nýtilkomnu viðbót við „fiskinn í sjónum“.  Add, poke og chat eru hæfilega kæruleysislegar yfirlýsingar um áhuga í gegnum Facebook.

Það er enginn þörf á að þramma Laugaveginn í háhæluðum skóm, drekka sig fullan fyrir sveitaball eða bíða eftir að togarinn komi í land þegar að tæknin hefur fært Facebook-notendum mun auðveldari leið.

—–

Þetta er kannski farið að hljóma hættulega mikið eins og pistill stefnumótasérfræðings.

En mér finnst þetta bara svo skemmtileg tilhugsun – að hugmyndin um Facebook sem landeyðu og hjónadjöful sé ekkert nema hystería og að það sem sé í raun og veru að gerast sé að fólk sé að finna sér fullkomnari maka en það átti kost á áður.

Með fjölbreyttari valkostum og nákvæmari upplýsingum til að byggja val sitt á, þá muni  fólk á endanum finna sér maka sem það á betri samleið með.

—–

Þeir sem eru að skilja núna áttu kannski aldrei sérlega vel saman. Rákust saman fyrir tilstilli lélegra gagna og lélegs úrtaks úr maka-mengi nærumhverfisins.

Miskilningurinn felst í því að sjá Facebook sem hjónadjöful, í stað þess að líta á þennan samskiptavef sem það sem hann er í raun og veru.

Fullkomnasti hjúskaparmiðlari sem til er.

En rétt eins ný flokkunarregla sem innleidd er í Outlook þá byrjar hann á að flokka uppsafnaðan póst.

Niðurstaðan verður samt heilt yfir meiri hamingja, færri skilnaðir til lengri tíma litið og… svo endað sé á sama stað og ég byrjaði… vonandi minni tæknifóbía :)

Flokkar: Dægurmál · Lífstíll · Spaugilegt · glens · neytendamál · ofmat · vangaveltur · Ísland · Þjóðarsálin | Facebook



Ummæli (6)

  •   Óli Gneisti // 13.12 2010 kl. 08:57

    Ætlaði að skrifa komment en skrifaði færslu.

  •   Hörður Harðarson // 13.12 2010 kl. 09:04

    Agalegt þegar fólk lendir í þessum framhjáhöldum. Sérstaklega agalegt þegar sama fólkið er svo óheppið að lenda í þessu aftur og aftur.

  •   Sigurður Ásbjörnsson // 13.12 2010 kl. 09:07

    Lundernið virðist að öllu jafna betra á Fjasbók en í bloggheimum!

  •   Arndís // 13.12 2010 kl. 09:30

    Vandinn held ég að sé ekki sá að fólk sé líklegra til að halda framhjá með tilkomu Facebook. Það er bara líklegra að það komist upp um það.

  •   Aggi // 13.12 2010 kl. 15:38

    Ég lýsi yfir sérlegri velþóknun minni á þessari hagfræðilegu framboðs-eftirspurnargreiningu!

  •   Andrés Jónsson // 13.12 2010 kl. 16:57

    Aggi: Er þetta ekki eitthvað sem þú getur notað sem dæmi þegar þú ert að kenna nemendum þínum í Ohio State?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar: