Alþjóðlegt samstarf
Ísland og ESB

Meirihluti hlynntur aðild að ESB

01.09.2005

Ný könnun sem IMG Gallup gerði fyrir Samtök iðnaðarins sýnir litlar breytingar á afstöðu Íslendinga til aðildar að Evrópusambandinu. Þetta er fyrsta könnunin sem gerð er eftir að ný stjórnarskrá ESB var felld í þjóðaratkvæðagreiðslu í Frakklandi og Hollandi. Svo virðist sem hræringarnar innan ESB hafi ekki haft mikil áhrif á afstöðu fólks til aðildar.

Helstu niðurstöður

Þegar spurt var: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) aðild Íslands að Evrópusambandinu sögðust 43% svarenda hlynnt, 37% andvíg en 20% hvorki hlynnt né andvíg. Á myndinni hér að neðan má sjá þróun síðustu fimm ára. Í átta af hverjum tíu skiptum, sem spurt hefur verið, hefur meirihlutinn verið hlynntur aðild. Hæst hefur stuðningur farið í 52% í febrúar 2002 en lægst í 36% í febrúar 2003. Að sama skapi reis andstaðan við aðild hæst í 48% í febrúar 2003 en varð minnst 25% í febrúar 2002.

Þróun viðhorfs almennings til aðildar að ESB

Þegar spurt var: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið sögðust 55% svarenda hlynnt, 30% andvíg en 15% hvorki hlynnt né andvíg. Þeim sem eru hlynntir því að taka upp aðildarviðræður hefur fækkað nokkuð á síðustu misserum eins og myndin hér að neðan sýnir en að jafnaði eru helmingi fleiri hlynntir aðildarviðræðum en andvígir.

Viðhorf almennings til aðildarviðræðna við ESB

Þegar spurt var: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að taka upp evru sem gjaldmiðil á Íslandi í stað íslensku krónunnar sögðust 54% svarenda andvíg því, 37% hlynnt því en 9% hvorki hlynnt né andvíg.

Þegar spurt var: Telur þú að aðild að Evrópusambandinu yrði almennt hagstæð eða óhagstæð fyrir þín lífskjör sögðust 45% telja að þau yrðu hagstæð, 32% óhagstæð, en 23% hvorki hagstæð né óhagstæð.

Þegar spurt var: Telur þú að það sé gott eða slæmt fyrir efnahag Íslands í heild að ganga í Evrópusambandið sögðust 45% telja það gott, 38% slæmt en 17% hvorki gott né slæmt.

Nánar um könnunina

Hægt er að skoða könnunina í heild sinni, ásamt eldri könnunum sem IMG Gallup hefur gert fyrir Samtök iðnaðarins, hér á vefsetrinu.

Jón Steindór ValdimarssonSenda grein

Leita á vefnum


Tungumál
Þetta vefsvæði byggir á Eplica