Uppreist æru

Víða í lögum er gerð krafa um óflekkað mannorð til að geta gegnt hinum ýmsu embættum eða störfum. Til dæmis er óflekkað mannorð kjörgengisskilyrði við alþingiskosningar. Samkvæmt 29. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands frá 17. júní 1944 getur forseti Íslands veitt þeim, sem ekki hefur óflekkað mannorð, uppreist æru og nýtur hann þá sömu réttinda og þeir sem hafa óflekkað mannorð.

Hvenær telst mannorð óflekkað?

Í 1. mgr. 5. gr. laga um kosningar til alþingis er skilgreint hvenær dómur hefur flekkun mannorðs í för með sér. Hafi einstaklingur gerst sekur eftir dómi fyrir verk sem telst vera svívirðilegt að almenningsáliti telst hann ekki hafa óflekkað mannorð. Í 2. mgr. 5. gr. sömu laga er skýrt út hvenær verknaður er svívirðilegur að almenningsáliti. Þarf sakborningur að hafa verið fullra 18 ára að aldri þegar brot var framið og refsing þarf að vera fjögurra mánaða fangelsi óskilorðsbundin hið minnsta. Sama gildir um öryggisgæslu en öryggisgæsla getur verið ákveðin þegar sakborningur er ósakhæfur sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða annars þess háttar.

Nú er einstaklingur dæmdur í þriggja mánaða fangelsi en refsingu er frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þessi einstaklingur hefur óflekkað mannorð og er t.d. kjörgengur til Alþingis að öðrum skilyrðum uppfylltum. Hann þarf því ekki að fá uppreist æru til að bjóða sig fram til Alþingis.

Reglur um uppreist æru

Um uppreist æru gilda ákvæði 84. og 85. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt 84. gr. almennra hegningarlaga öðlast einstaklingur öll réttindi sem fást með uppreist æru sjálfkrafa að liðnum 5 árum frá því að refsing er að fullu úttekin, fyrnd eða uppgefin, ef hann hefur aðeins einu sinni hlotið dóm sem hefur skerðingu borgararéttinda í för með sér og refsingin fer ekki fram úr eins árs fangelsi. Ákvæðið setur það skilyrði að um fyrsta brot sé að ræða, refsingin sé frá fjögurra mánaða fangelsi til 12 mánaða fangelsis, 5 ár séu liðin frá því að refsingin var afplánuð að fullu, fyrnd eða uppgefin og að viðkomandi hafi ekki sætt ákæru sem þyngri refsing liggur við en sektir á þessum 5 árum. Þannig kemur umferðarlagasekt ekki í veg fyrir að viðkomandi fái sjálfkrafa uppreist æru. Engra aðgerða er þörf til að öðlast uppreist æru skv. þessu ákvæði. Litið er svo á að viðkomandi njóti fullra réttinda sjálfkrafa ef skilyrði ákvæðisins eru uppfyllt.

Í 1. mgr. 85. gr. almennra hegningalaga kemur fram að séu liðin tvö ár frá þeim fresti sem getið er í 84. gr. og að fullnægðum öðrum skilyrðum sem sett eru í greininni getur forseti ef dómfelldi hefur hegðað sér vel á þessu tímabili veitt honum uppreist æru. Hér er einstaklingi sem uppfyllir skilyrði 84. gr. um að fá sjálfkrafa uppreist æru að 5 árum liðnum frá því að refsing væri afplánuð að fullu, fyrnd eða uppgefin, veitt tækifæri til að sækja um uppreist æru þremur árum fyrr, áður en hann öðlast sjálfkrafa öll borgararéttindi sem fást með uppreist æru.

Einstaklingar sem dæmdir hafa verið í meira en eins árs fangelsi og einstaklingar sem oft hafa verið dæmdir fyrir brot sem teljast svívirðileg að almenningsáliti öðlast ekki sjálfkrafa öll þau réttindi sem fást við uppreist æru. Samkvæmt 2. mgr. 85. gr. almennra hegningarlaga getur forseti að liðnum 5 árum frá því að refsing var að fullu úttekin, fyrnd eða uppgefin, veitt manni uppreist æru, sem ekki fellur undir skilyrði 84. gr. sömu laga, enda færi umsækjandi á það sönnur, sem metnar séu gildar, að hegðun hans hafi verið góð umrædd 5 ár. Í 3. mgr. 85. gr sömu laga kemur fram að þegar sérstaklega stendur á megi veita uppreist æru að tveimur árum liðnum að uppfylltum skilyrðum 1. mgr. 85. gr. sömu laga, þó að refsitími sé lengri en eins árs fangelsi.

Hvers vegna að fá uppreist æru?

Óflekkaðs mannorðs er krafist víða í íslenskum lögum.

  • Ríkissáttasemjari skal hafa óflekkað mannorð skv. 1. mgr. 20. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938.
  • Kjörgengur við kosningar til Alþingis er hver sá ríkisborgari sem kosningarrétt á til þeirra og hefur óflekkað mannorð sbr. 1. mgr. 34. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 3. gr. laga nr. 65/1984.
  • Óflekkað mannorð er eitt af skilyrðum til þess að vera kjörgengur í landsdóm sbr. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um landsdóm nr. 3/1963.
  • Stjórnarmenn Landsvirkjunar skulu hafa óflekkað mannorð sbr. 2. mgr. 5. gr. laga um Landsvirkjun nr. 42/1983.
  • Gerðarmenn skulu hafa óflekkað mannorð sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um samningsbundna gerðardóma nr. 53/1989.
  • Matsmenn sem sýslumaður tilnefnir vegna skipta á dánarbúum, sbr. 3. mgr. 18. gr. laga um skipti á dánarbúum og fl. nr. 20/1991.
  • Stefnuvottur skal hafa óflekkað mannorð sbr. 2. mgr. 81. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
  • Stofnendur vátryggingafélags skulu hafa óflekkað mannorð sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994.
  • Stjórnarmenn vátryggingafélags skulu hafa óflekkað mannorð sbr. 2. mgr. 43. gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994.
  • Aðalumboðsmaður erlends vátryggingafélags hér á landi skal hafa óflekkað mannorð sbr. 3. mgr. 71. gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994.
  • Til að öðlast löggildingu sem endurskoðandi þarf að hafa óflekkað mannorð sbr. 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um endurskoðendur nr. 18/1997.
  • Stjórnarmenn í lífeyrissjóði skulu hafa óflekkað mannorð sbr. 1. mgr. 31. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/ 1997.
  • Stjórnarmenn í verðbréfamiðstöð skulu hafa óflekkað mannorð sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um rafræna eignaskráningu verðbréfa nr. 131/1997.
  • Til að öðlast lögmannsréttindi þarf að hafa óflekkað mannorð sbr. 3. tölul. 1. mrg. 6. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998.
  • Stjórnarmenn og forstjóri Fjármálaeftirlitsins þurfa að hafa óflekkað mannorð sbr. 3. mgr. 6. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998.
  • Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta skulu hafa óflekkað mannorð sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 98/1999.
  • Kjörgengur við kosningar til Alþingis er hver sá ríkisborgari sem kosningarrétt á til þeirra og hefur óflekkað mannorð sbr. 4. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000.
  • Skattstjórar skulu hafa óflekkað mannorð sbr. 1. tölul. 1. mgr. 85. gr. laga tekjuskatt nr. 90/2003.
  • Stjórnarmenn og forstjóri Samkeppnisstofnunar skulu hafa óflekkað mannorð sbr. 3. mgr. 7. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005.
  • Stjórnarmenn tollmiðlunar sem tollstjórinn í Reykjavík veitir leyfi til skulu hafa óflekkað mannorð sbr. 2. tölul. 2. mgr. 48. gr. tollalaga nr. 88/2005. Sama gildir um stjórnarmenn tollvörugeymsla.
  • Gerð er krafa um óflekkað mannorð í b lið 1. mgr. 9. gr. laga um starfstengda eftirlaunasjóði nr. 78/2007.
  • Stjórn og framkvæmdastjóri Kauphallar Íslands skulu hafa óflekkað mannorð sbr. 2. mgr. 11. gr. laga um kauphallir nr. 110/2007.

Ef einstaklingur, sem hefur hlotið dóm sem er svívirðilegur að almenningsáliti, ætlar að bjóða sig fram til alþingis eða gegna ofangreindum störfum þá er nauðsynlegt að óska eftir uppreist æru nema að refsing viðkomandi hafi verið minni en eins árs fangelsi og meiri en fjögurra mánaða fangelsi og að liðin séu 5 ár frá því að refsing var að fullu úttekin, fyrnd eða uppgefin.

Hvernig er sótt um uppreist æru?

Sótt er um uppreist æru til dómsmálaráðuneytisins. Ósk um uppreist æru þarf að vera skrifleg. Koma þarf fram nafn, kennitala og heimilisfang. Vottorð um góða hegðun þarf að fylgja með frá tveimur valinkunnum einstaklingum, t.d. frá vinnuveitanda.

Sakavottorð hreinsast ekki

Sakavottorð hreinsast ekki við uppreist æru, aðeins bætist við ný færsla á sakavottorðið þar sem fram kemur að viðkomandi hafi fengið uppreist æru. Sjá upplýsingar um sakavottorð.

Uppreist æru er ekki sama og náðun. Aðeins er verið að veita borgararéttindi, t.d. rétt til að bjóða sig fram til Alþingis.

Uppreist æru rýfur ekki ítrekunaráhrif dóma.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn