Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.



Leita í pistlum

Sigrún Pálína Ingvarsdóttir

Hendur kærleikans

20. febrúar 2011

Kæru vinir,
ég ætla að deila með ykkur lífsreynslu minni og lífssýn. Ég ætla jafnframt að deila því með ykkur hvernig ég sá og upplifði samband mitt við Guð.

Ég hef alltaf vitað að Guð væri til, þótt ég sé hvorki alin upp við að trúa á Guð né að biðja bænir. Sem barn leit ég oft upp í himininn og vonaðist til að Hann horfði á mig með sinni föðurlegu blíðu.

En augu hans voru reið og ógnandi.

Ég var ekki nógu góð.
Ég verð að vanda mig.
Ég get ekki falið mig.
Guð heyrir og sér.
Góð, góð, betri betri.

Þessi litla stelpa, sem var svona hrædd, hafði aldrei gert neitt rangt. Það voru ljótar hendur sem höfðu snert hana og gert hana skítuga. Hendurnar voru kaldar og þær skömmuðust sín ekki. Þeirra skömm varð hennar.

Hvað er að?
Hvað hef ég gert rangt?
Ég verð að breyta mér,
hugsa fallega og passa mömmu mína.
Guð sérðu hvað ég er góð?
Elsku pabbi minn, ertu svangur?
Pabbi, þú ert svo skítugur
Af hverju ertu fullur?
Hvað hef ég gert rangt?
Ég skal vera góð.

Þegar ég lít til baka og hugsa til hennar Pálu litlu þá sé ég hversu sterk og falleg hún var.
Inni í henni var lítill, veikburða logi. Ljós sem leitaði að fegurðinni og afneitaði ljótleikanum.
En hún bar leyndarmálið sem enginn mátti vita. Leyndarmálið um hvað hendurnar höfðu gert henni. Hún varð svo sek að hún átti ekki skilið kærleikann. Ljótleikinn varð hennar.

Elsku pabbi minn, er þér kalt?
Elsku mamma mín, ég skal verða mamma þín.
Guð er ég ekki góð?
Ég verð að forðast hendurnar.
Kannski, ef ég verð góð.

En ég fann leið og sú leið bjargaði mér og mótaði mig og gerir enn. Leiðin mín var að gefa. Það var alveg sama hvar ég var eða í hvaða aðstæðum, ég valdi einhvern eða eitthvað til að hugsa um og fékk þannig útrás fyrir þörfina að elska. Það voru börnin sem ég gat passað og dýrin sem ýmist voru lifandi eða bara netakorkur sem varð hundurinn minn.

Ég verð að verða betri. Betri.
Ég hugsa um barnið í næsta húsi.
Ég bið bænirnar mínar.
Ég geri mömmu glaða.
Nú er ég góð.

Þegar ég var fimmtán ára fór ég í sveit. Á hlaðinu tók á móti mér gamall maður og hann sagði: „Það skiptir ekki máli hvað ég heiti. Ég er afi þinn á meðan þú ert hér.“
Í sveitinni hitti ég hann.
Ég horfði á hann.
Hvað vildi hann?
Ég vissi ekki nafnið hans.
Gat ég borið traust til hans?
Hann varð afi minn.
Ég söng og breiddi yfir hann.
Ég virti hann og dáði.
Hann hafði hendur kærleikans

Hendurnar hans afa voru orðnar þreyttar. Þrjú falleg andvörp og svo…

Hann dó en ég varð þakklát fyrir vikurnar sem ég fékk að eiga hann. Hann gaf mér trú á lífið og dauðann. Hlýjan frá gömlu höndunum hans fylgdu mér. Á þeim stundum sem ég var mest í vafa um tilveru Guðs þá voru það hendurnar hans afa sem pössuðu mig og hugguðu.

Á tímapunkti í lífi mínu byrjaði ég að vinna með sjálfa mig. Ég vildi verða betri manneskja. Ég varð að losa mig við allan ljótleikann. Ég lagði af stað í langt ferðalag sem kostaði mig og svo marga aðra mikinn sársauka. Það gerði ég fyrir Hann og hinar konurnar. Ég reyndi að segja sannleikann - og þar með að rjúfa þögnina.

Guð, hvað gerði ég rangt?
Ég sagði jú bara sannleikann?
Í húsi kærleikans eru hendur sem gera ljótt.
Ég varð að stoppa ljótleikann
En þeir vilja ekki heyra.
Ó, Guð ég finn svo til.
Nú finn ég bara tómleikann
Ég verð að fela mig langt, langt í burtu.
Guð, nú hætti ég við þig.

Ég var þreytt og særð og ég yfirgaf af því að ég upplifði mig yfirgefna af Guði og mönnum. Lífið varð aftur hættulegt. Ég byrjaði að búa um mig í ókunnugleikanum sem minnti mig á Pálu litlu, stúlkuna sem var full af skömm og sektarkennd. Ég varð að hvílast og fara í skjól. Ég hélt að loginn væri útbrunninn og ég reyndi að hætta að elska.

Þá fékk ég óvænta hjálp. Vinur minn kom í heimsókn með hundinn sinn. Hundurinn settist fyrir framan mig og horfði á mig með mikilli blíðu. Af alúð og nærfærni byrjaði hann að sleikja sár sem ég hafði fengið á hnén af því að ég datt. Hann leit upp til mín þess á milli eins og hann væri að athuga hvernig mér liði. Ég horfði hugfangin á hann og þá skildi ég. Ég varð sjálf að sleikja sárin mín og að finna logann minn aftur. Ég varð að elska.

Ég reis upp og gróf hendur mínar í jörðina. Ég varð að skapa og verða þess valdandi að eitthvað fallegt yrði til. Ég sáði fræjum og úr þeim uxu stór, falleg og sterk blóm. Í gegnum fegurðina sem hendur mínar sköpuðu lagði ég af stað í sársaukafullt ferðalag.

Ég fór og sótti Pálu litlu. Ég tók í hönd hennar og leiddi hana af stað til að sýna henni heiminn upp á nýtt. Ég gerði hana sýnilega, hlustaði á sögu hennar, huggaði og umfaðmaði hana af kærleika. Ég þvoði burt skítugu handarförin af líkama hennar og þannig skiluðum við ljótleikanum og skömminni og litla stúlkan varð aftur hrein.

En reiði mín til Guðs var mikil og ég skrifaði honum bréf þar sem ég skammaði hann. Sagði honum allt um svik hans og spurði hann aftur og aftur: Hvað viltu mér?

Eftir að ég viðurkenndi reiði mína opnaðist ný leið og saman fórum við Pála litla að leita Guðs. Ég var í dönsku húsi kærleikans af því að ég var skírnarvottur barnabarns míns. Presturinn beindi orðum sínum til mín og hún sagði: Guð ætlast ekki til að þú sért fullkomin.

Ég horfði óttaslegin í augu þjóns Guðs, í húsi kærleikanns. Og spurði: Hvað segir þú? Hún endurtók: Guð segir: Þú þarft ekki að vera fullkomin. Hún vissi ekki hver ég var eða hvað ég hafði gert. Það var Guð sem talaði til mín.

Ég gekk út í sólina sem Barn Guðs og ég þurfti ekki að vera fullkomin. Þá skildi ég og fann að Guð hafði verndað mig og stundum haldið á mér í gegnum allt mitt líf. Ég gat fyrirgefið og ég skildi. Ég varð að vera í tengslum við tilfinningar mínar, losna við ljótleikann og finna kærleikann til að trúa því að ég ætti skilið nálægð Guðs.
En það átti eftir að reyna á trú mína. Ég veiktist alvarlega og var lögð inn á sjúkrahús. Í fyrstu varð ég óttaslegin en svo fann ég að ég var tilbúin til að lúta vilja Guðs. Ég kvaddi og ég varð sátt. Sátt við Guð, lífið og mennina. Ég var sú móðir sem ég vildi vera og ég hafði beðist fyrirgefningar.

Ég hafði starfið sem mér var ætlað og ég þorði að elska. Alla nóttina talaði ég í huganum til allra þeirra sem ég elskaði. Sagði allt sem ég átti eftir ósagt og bað Guð að gæta fjölskyldu minnar, vina og skjólstæðinga. Ég lagði aftur augun og sagði: Verði þinn vilji. Takk fyrir mig.

Eftir að ég kom heim af spítalanum varð ég yfirþyrmd af tilfinningum. Ég stóð frammi fyrir vali.
Ætlaði ég að velja myrkur þunglyndis og angistar eða ljós lífsins. Ég barðist við þessi tvö öfl. Endaði svo með að ná að leggjast út í glugga og láta sólina verma andlit mitt. Ég valdi ljósið og þakkaði Guði. Dansaði og grét.

Þegar ég kem í vinnuna mína byrja ég á að kveikja á kertum mér til verndar og leiðbeiningar og skjólstæðingum mínum til styrktar. Ég sest í stólinn minn og horfi á myndina af honum afa í hillunni. Hún minnir mig á að ég er ekki ein og ég get og ég kann. Þá finn ég þakklætið og auðmýktina. Og ég veit og ég skil. Allt mitt líf hef ég safnað reynslu til að geta leyst starf mitt vel af höndum. Í gegnum sársaukann, sorgina, reiðina, óttann og skömmina get ég verið nálæg. Og ég skil.

Ferðalagi mínu er ekki lokið og ég er enn að þroskast. Það geri ég í nálægð við Guð, sjálfa mig og aðra. Ég er sátt við allt mitt líf, bæði nútíð og fortíð. Í dag er ég óhrædd og inni í mér er stór, bjartur og fallegur logi sem enginn getur tekið frá mér eða slökkt. Í þessum loga er brennandi kærleikur til fólksins, lífsins og Guðs.

Nú stend ég hér. Í húsi kærleikans.
Ég er rödd sannleikans og ég er hætt að vera hljóð.
Þið heyrið í mér. Sjáið mig.
Þið trúið mér og ég finn kærleikann.
Ég þarf ekki að vera fullkomin eða góð.
Ég rétti ykkur höndina.
Ég er búin að ryðja brautina
og saman hefjum við græðsluna.
Við tendrum ljós.
Þá hverfur hræðslan.
Ég róla mér hátt, hátt upp í himin og þar eru augun blíð og góð.
Nú veit ég hvað Guð vildi mér
Við ykkur segi ég: Munið að gæta ykkar vel.
Og glöð segi ég: Takk fyrir mig.

Hugvekja flutt i Bessastaðakirkju 20. febrúar 2011
Sigrún Pálína Ingvarsdóttir.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2958.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar