Í Sögu 1995 fjallaði ég um skoðanir Guðmundar Jónssonar (GJ) á vistarbandinu.[1] Í sama bindi birtust andmæli Guðmundar.[2] Áður hefur GJ bent á, að sífellt hafi orðið algengara í fjölmiðlasagnfræði að grípa til vistarbandsins sem allsherjarskýringar á vanþróun Íslands fyrr á tíðum, og raunar ekki aðeins í fjölmiðlum, heldur líka meðal sagnfræðinga.[3] Það er því nokkurs um vert að kanna til hlítar mikilvægi vistarbands í atvinnuþróun landsins.

     Umræðu okkar GJ um áhrif vistarbandsins á viðgang sjávarútvegs sýnist mér mega telja fjórþætta. 1) Í upphafi var til athugunar, hvort þeir, sem höfðu ástæðu til að hefja útgerð þilskipa, hefðu látið vistarbandið koma í veg fyrir það. 2) Þá var um það að ræða, þegar öld þilskipa var hafin, hvort útgerðarmenn þeirra hafi haft óhagræði af vistarbandi. 3) Í síðustu grein sinni setur GJ fram þá skoðun, að með vistarbandi hafi vinnuafl nýst illa við landbúnað og því verið minna vinnuafl aflögu í sjávarútvegi. 4) GJ hefur í nefndum tveimur greinum lagt áherslu á það, að með vistarbandi hafi verið komið í veg fyrir, að við sjóinn fjölgaði fólki, sem leitaði bjargræðis á bátum. Athugum málið í þessum fjórum þáttum.

     1. Um uppkomu þilskipaútgerðar GJ kveður okkur sammála um, að vistarbandið hafi ekki beinlínis hindrað uppkomu þilskipaútgerðar.

     2. Um óhagræði þilskipaútgerðar af vistarbandi. GJ nefnir tvær heimildir, þegar þilskipaútgerð hafði staðið í meira en hálfa öld, og telur þær til merkis um, að vistarbandið hafi valdið skorti á fólki á þilskip. Orð eða ástæður þessara heimilda tengja þó fólksekluna ekki vistarbandi. Sveiflur verða iðulega í eftirspurn eftir vinnuafli. jafnvel þótt störfin, sem leitað er eftir fólki til, séu arðsöm, bregðast menn ekki við eins og hendi sé veifað. Það eru ýmis önnur bönd en lögboðið vistarband, sem binda menn. Raunar benda heimildirnar til þess, að menn hafi, eins og á stóð, átt kost á öðrum og arðsamari störfum. Varðandi skort á vinnuafli yfirleitt er á það að líta, að vegna Vesturheimsferða á þeim árum, sem hér eru til umræðu, fækkaði þeim, sem kostur var á að ráða til hvers konar starfa.

      3. Um áhrif vistarskyldu á afköst. GJ telur ástæðu til að velta því fyrir sér, hvort vistarskyldan hafi ekki stuðlað að óhagkvæmum atvinnurekstri. Hún hafi nefnilega séð bændum fyrir ódýru vinnuafli miðað við frjálsan vinnumarkað og slævt viðleitni þeirra til að hagræða og leita nýmæla, sem spöruðu vinnu og juku afköst. Um leið vísar hann til þeirra raka Hermanns Jónassonar gegn vistarbandi, að það drægi úr afköstum vinnufólks, þar sem það veitti því svo mikið öryggi, og telur GJ þau hafa verið gild. Með þessu er Hermann reyndar að segja, að vinnuaflið hafi orðið dýrt miðað við frjálsan vinnumarkað.

     Við skulum hugsa óháð Hermanni. Dregur atvinnuöryggi, sem felst í ráðningu til árs, úr afköstum? Er ekki þvert á móti líklegt, að maður, sem veit, að hann á að vinna lengi á sama stað og jafnvel sömu verkin daglega, telji það hvatningu til að auðvelda sér verkin? Húsráðandi, sem veit, að hann heldur sama manninum árlangt, hefur frekar ástæðu til að kenna honum góð vinnubrögð og úthugsa betri en húsráðandi, sem hefur daglaunamann. Starfsmaður hefur meiri ástæðu til að vinna vel, ef hann er ráðinn til langs tíma en ef hann á að hætta innan nokkurra vikna. Á tímum vistarbands var vitaskuld samkeppni um vinnuafl. Gert var misvel við fólk. Vist þótti betri á einum bæ en öðrum. Til þess að geta gert vel við fólk var hagur að láta jörðina ekki spillast og heldur reyna að bæta jörðina, ef til þess voru nokkur efni. Líkt er nú á dögum um ráðningartíma fólks. Það hlýtur til að mynda að hafa áhrif á viðleitni kennara til að bæta vinnubrögðin, hvort hann er ráðinn til að leysa af í mánaðartíma eða ráðningin er með því öryggi, sem kennurum býðst best.

     Ég gerði tilraun til að fá menn til að skoða þessi mál af öðrum sjónarhóli en íslenskum með því að benda á það, að á þessari öld hefur orðið ör breyting atvinnuhátta í öðrum löndum við skipulag, þar sem fjöldi launþega hefur notið atvinnuöryggis af hendi atvinnurekanda síns og minnir á gagnkvæmar skuldbindingar vistarbands. Ég hafði þar Japan sérstaklega í huga. Þetta hefur ekki hreyft við GJ. Málið er því ekki það, sem GJ heldur fram, að vistarbandið hafi verið sniðið að þörfum bænda, heldur, að gagnkvæmar skuldbindingar af þessu tagi verða forsendur fyrir starfsháttum og menn læra að bregðast við þeim. Það gerir til að mynda aðrar kröfur til fyrirhyggju atvinnurekanda að hafa árlangt skyldur og réttindi gagnvart starfsfólki en ef samningar eru skammærir, og um leið hvetur það til hagrænna starfshátta. Um það eru dæmi í nútímanum í fiskvinnslu, þar sem starfsfólk hefur nokkurt atvinnuöryggi og reynir á fiskverkandann að hafa verkefni í samræmi við það.

     4. Um það hvort vistarband bægði fólki frá lífvænlegri búðsetu. GJ lýkur svörum sínum með því að halda því fram, að dæmi kunni að hafa verið um, að mönnum hafi verið bægt frá því að reyna að bjarga sér við sjóinn (á árabátum) með takmörkunum á lausamennsku. Hér skiptir ekki máli, hvort einstök dæmi megi skýra svo, heldur hvort eftirgjöf í þeim efnum hefði breytt atvinnuháttum til langs tíma. Málið er, hvort um var að ræða varanlegan grundvöll, sem hefði getað orðið forsenda fyrir nýjum atvinnuháttum, en það hafa menn hingað til talið vera spurningu um þilskipaútgerð. Fólki fjölgaði og fækkaði við sjóinn á ýmsum stöðum á löngum öldum árabáta. Menn fengu vissulega að spreyta sig á því að hafa framfæri við sjóinn, eins og ég hef áður rakið.

     Má komast lengra í þessu máli með nánari rannsókn? Mér sýnist upphafsvillan, þegar farið var að kenna vistarbandi um að hafa haldið niðri sjávarútvegi, hafi verið sú, að rýnendur málsins voru of bókstaflegir, þ.e.a.s. litu á bókstafinn, lög og reglur og ræður, en hófu ekki rannsóknina á stöðu einstaklinga og heimila með því að taka fyrir byggðarlög við sjóinn, eftir því sem heimildir voru til, til að athuga stöðu hvers einstaklings þar og þá ekki síst það, hvort nokkuð hafi ráðið henni svo, að einhver annar eða aðrir hafi ekki átt þess kost vegna vistarbands að sjá sér til lengdar betur farborða við sjóinn, og sömuleiðis hvort þeir, sem áttu skip, báta og útræði hafi ekki fengið að njóta slíks vegna vistarbands alþýðu manna.

Sögu 34 (1996) 307-9

 

 

[1] Björn S. Stefánsson. Þróun sjávarútvegs við vistarbandsákvæði, Sögu 33 (1995) 187-191.

[2] Guðmundur Jónsson. Atvinnu- og búsetustýring með vistarbandi, Sögu 33 (1995) 192-94.

[3] Guðmundur Jónsson. Stjórntæki gamla samfélagsins aflögð, Nýrri sögu 6 (1993) 64-69.